SÚLAN – Drottning Atlantshafsins
Súlan (Morus bassanus) er sjófugl sem heldur sig úti á rúmsjó nema yfir varptímann sem hefst í apríl, þegar hún sækir í klettaeyjar í Norður-Atlantshafinu og björg ´annesjum til að verpa. Hún er stærsti sjófugl Evrópu með vænghaf milli 170 til 180 sm og fuglinn sjálfur um 90 til 100 sm langur. Fræðinafn sitt dregur hún af eyjunni Bass Rock við Firth of Forth í Skotlandi.
Súlur eru einkvænisfuglar og trygglyndar við varpsetur þar sem parið heilsast með þanda vængi bringu að loknum vetri á úthafinu og strjúka saman nefjum og treysta hjúskaparböndin áður en varpið hefst. Súlur geta orðið nokkuð gamlar og er talið að þær verpi að meðaltali 12 sinnum. Ungfuglar eru dökkbrúnir fyrsta árið en lýsast með ári hverju þar til þeir verða kynþroska.
Veiðiaðferð súlunar kallast súlukast. Þær steypa sér úr 10 til 40 metra hæð nær lóðrétt niður og leggja aftur vængina rétt áður en þær kljúfa vatnsyfirborðið og ná þannig dýpra eftir fiskinum. Framan á fuglinum eru loftsekkir sem verka sem höggdeyfar þegar hann skellur á vatnsyfirborðinu og í kastinu myndar líkami súlunnar spjótlaga form sem klýfur vatnið.
Súluhreiðrin eru hraukar byggðir upp af þangi og sinu. Auk þess má oft sjá bandspotta og netadræsur skreyta hreiðrin, sem stundum getur reynst súluungunum hættulegt ef þeir flækjast í þeim. Hreiðrin standa þétt og súluparið ver hreiður sitt af hörku svo nágrannarnir nái ekki að ræna hreiðurefni. Súlubyggðin er langt frá því að vera kyrrlátur staður og allan daginn hljómar þar urr og krunk frá súlunum og yfir byggðinni liggu megn lyktin af gúanói.
Varp: Súlan verpir einu eggi í fyrri hluta aprílmánaðar. Litur eggjaskurnsins er hvítur eða bláleitur þakinn hvítri kalkhúð en verður brúnn eða svartur. Súlan liggur á egginu í rúmar sex vikur. Þegar unginn klekst úr egginu er hann nær alveg blindur og ósjálfbjarga. Unginn er í fyrstu alsettur ljósum dúnfjöðrum en þegar dregur að því að hann yfirgefi hreiðrið að hausti falla þær af og undir er svartleitur fjaðrahamur með hvítum doppum. Ungfuglinn fær svo ekki fullorðins liti fyrr en hann er orðinn 4 – 5 ára. Eftir útungun, sem tekur um 44 daga, heldur unginn til í hreiðrinu í um 3 mánuði undir verndarvæng foreldra sinna. Þá hoppar hann út í sjó og foreldrarnir skipta sér ekki meira af honum eftir það og verður hann þá að læra að synda og stinga sér uppá eigin spýtur.
Súlan hefur verið veidd frá örófi alda, bæði ungar og fullorðnar súlur. Í dag eru fullorðnu súlurnar friðaðar en ungar eru teknir á fáeinum stöðum enn í dag. Súlan í Eldey nýtur þó algerrar friðunar.
Hlusta á súluna (wma skrá 117kb)
Hlusta á súluna (wma skrá 752kb)
Hlusta á súluna (wma skrá 247kb)